Þvílíkt áfall!Mér finnst það hjálpa mér mikið að skrifa niður það sem ég hugsa.Maður gerir sér hreinlega ekki grein fyrir sorginni sem fylgir því að missa ættingja, hvað þá bróðir sinn.
Alla tíð hef ég hugsað hvað ég hef verið heppinn að hafa aldrei þurft að að kveðja einn né neinn sem mér er nákominn. Kannski að þetta hafi verið kaldhæðni örlaganna. Maður spyr sig.
Eftir að hafa fengið fréttirnar seinast liðinn fimmtudag hefur maður ekki verið beint samkvæmur sjálfur, eða eins og ég er venjulega. Ég hef verið heldur hlédrægur og hugsað mun meira en áður. Hvað lífið er magnað fyrirbæri, ekkert er öruggt, ekkert er save! Maður hefur velt fyrir sér orðtökunum "Enginn veit sína ævina fyrr en öll er" og "Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur".
Ég trúi þessu varla ennþá, að hann Benni bróðir minn sé farinn og ég mun hvorki hitta hann né tala við hann aftur, að minnsta kosti ekki í þessu lífi.
Sú tilhugsun iljar manni í gegnum sorgina að vita að hann er nú kominn að mun betri stað og mun vaka yfir okkur fjölskyldunni. Hann mun gera eins og hann gerði áður að líta eftir mér hvað sem ég geri. Hann mun brosa og hrópa hátt "áfram" þegar hann horfir á Brynjar litla bróðir keppa í fótbolta. Hann mun hér eftir alltaf vera hjá okkur.
Ég hef alla tíð vitað að ég ætti marga mjög góða vini. Eftir að ég fékk fréttirnar sagði ég smám saman vinum mínum frá áfallinu. Hver einn og einasti hefur boðið mér öxl sína, hver einn og einasti hefur gefið sér tíma til að leyfa mér að tala við sig. Ég á svo mikið að þakka hverjum einum og einasta.
Að lokum vil ég þakka fyrir allan stuðninginn sem og samúðarkveðjur til okkar í fjölskyldunni.
Það eru erfiðir tímar framundan, ég ætla að gefa mér tíma til syrgja með fjölskyldu minni. Við fjölskyldan munum eflaust styrkjast til muna við þennan missi.
Tíminn læknar öll sár, ég held að maður muni bera þessi sár alla ævi, en með tímanum mun maður læra að lifa með þeim.
Þú verður alltaf í hjarta mér,
Benedikt Steinþórsson.
Björn Þór J.